Síðastliðinn föstudag héldu Gæðingarnir fjórir í sannkallað „roadtrip“. Fyrr í vikunni hafði grænmetisbúllan Maður lifandi orðið fyrir valinu og þó svo að allir Gæðingarnir hlaupi fáránlega hratt ákváðu þeir að fara á útúrtjúttaða kókaínbílnum hans Eyþórs í Borgartúnið þar sem Maður lifandi er til húsa. Viðurkennast verður að vissar efasemdir leyndust í hugum Gæðinganna þar sem álíka grænmetisstaðir hafa áður leikið þá grátt. Annað átti þó eftir að koma á daginn!
Staðurinn sjálfur er mjög snyrtilegur og auk veitingastaðarins er þar einnig að finna mat-vöruverslun sem selur einungis lífrænt ræktaðan mat, hippum og konum til ómældrar ánægju. Fór ágætlega um Gæðinganna á staðnum en fyrir þá sem vilja forðast skarkala hverdagsins má finna á neðri hæðinni algeran sælureit þar sem stemningin er róleg og sætin þægilegri. Það var þó eitt sem fór virkilega fyrir brjóstið á fjórmenningunum en það var ruddalegt skilti sem á stóð að gestir ættu sjálfir að ganga frá eftir sig. Svo misboðið var Gæðingunum að litlu mátti munu að þeir stormuðu út. Þeir létu þó skylduverkin ganga fyrir en staðurinn fær stóran mínus fyrir þennan skort á þjónustu.
Af matnum að segja þá kom hann skemmtilega á óvart. Síðast þegar snætt var á álíka stað voru viðbrögðin misjöfn en það gengur allir sáttir frá þessari máltíð. Bergur Baquette fékk sér kjúklingavefju og lét vel að henni, Eyþór og Kristján fengu sér kjúklingaburrito sem ku hafa bragðast guðdómlega og Ellert skellti sér á salat ásamt súpu dagsins. Súpan olli að vísu von-brigðum og var salatið og súpan alltof hátt verðlagt og það fylgdi ekki brauð með. Hinsvegar voru hinir réttirnir á sanngjörnu verði. Staðurinn fær toppeinkunn fyrir „le digestion“ því máltíðin var létt í maga og auðmelt.
Enn og aftur fylgir fræga fólkið Matgæðingunum í hverju spori og var það einnig tilfellið með Maður lifandi. Svo virðist sem rjóminn af þotuliði borgarinnar sé ætíð saman kominn þar sem Gæðingarnir snæða enda reynir það ætíð að fylgja þeim fersku straumum sem um þá leika. Í þetta sinn var það poppmógúllinn og sjónvarps- og útvarpsgoðið Dr. Gunni sem fylgdist með fjórmenningunum að störfum en það endurspeglar gjarnan orðstír staðarins ef frægir borða þar að staðaldri.
Semsagt, toppstaður með ferskan, hollan og ljúffengan mat sem er í flestum tilfellum á sanngjörnu verði.
Gæðingarnir gáfu:
Bergur Baquette: Fjórar
Eyþór Eðall: Þrjár og hálf
Kristján Cowell: Þrjár og hálf
Prins Ellert: Þrjár