Annáll
Þar sem Matgæðingarnir hafa einungis verið starfandi í um það bil 4 mánuði þá verður þetta ekki annáll í fullri lengt, heldur munum við stikla á stóru.
Lok Ágúst: Fjórir vörpulegir drengir stofna matarfélag, Bergur, Ellert, Eyþór og Kristján. Þeir byrja á því að fara á Pizza Pronto, þessi staður er "le solid", menn verða sjaldan fyrir vonbrigðum. Þrjár stjörnur.
September: Næst fóru þessir fjórir drengir á The Deli, Mama´s Taco klúðraði sínum málum allverulega þegar þeir höfðu ekki opnað sinn subbulega stað áður tilgreindum tíma. The Deli var ágætt, nokkuð góð meðaleinkunn, hollt og gott. Allir Gæðingar gáfu tvær og hálfa stjörnu.
Nonnabiti varð næst fyrir valinu, Cowell lenti í miklu basli með snæðing sinn þar sem roskna afgreiðslufólkið á Nonnabita gleymdi að gera Nonnabátinn hans. Drengirnir tóku þetta ekki nærri sér þá en nú, svei mér þá, þetta myndi verða á forsíðu DV. Þeir hafa þroskast og staðlarnir hafa hækkað. Nonnabiti fékk ágætis einkunnir þar af tvo fjarka.
Quiznos var næsti viðkomustaður piltanna, reynslan varð meiri og meiri. Quiznos býður upp á samlokur af ýmsu tagi og goslaust kók. Þetta kók-fíaskó fór alveg með fæðingana og hrundi einkunnin niður eftir þessa "le catastroph". Samlokurnar brögðuðust þó ágætlega, prýðileg sósa sem fylgir þarna með. Hefur undirritaður gert sér nokkrum sinnum leið aftur á þennan umdeilda stað þá aðeins sem óbreyttur. Gosið hefur þá verið í lagi, en það er bara einfaldlega ekki nógu gott að hafa gosið stundum "gosað" og stundum ekki. Meðaleinkunn var tvær og hálf stjarna.
Humarhúsið var staðurinn sem lyfti þessu matarfélagi upp á hærri staðal. Byrjuðum eftir þetta að kalla okkur "Matgæðingana", full ástæða til. Vorum fyrst efins hvort við værum tilbúnir í þetta stökk, við ákváðum að eftir mikla umræðu að drífa okkur bara. Þetta var ákvörðun sem fáir Gæðingar sáu eftir. Fórum á fimmtudegi og töluðum við eigandann, hann tók vel í þetta. Mættum á föstudeginum 23. september klæddir í okkar fínasta, örkuðum yfir Bókhlöðustíginn og snæddum á Humarhúsinu. Var þarna einstaklega indæll þjónn sem bauð okkur upp á hvalakjöt í forrétt, alveg himneskt. Fengum okkur allir topprétti og svo er setning þjónsins eftir að báðum um reikninginn ódauðleg:"Heyrðu strákarnir í eldhúsinu ætla bara að bjóða ykkur upp á þetta", við vissum ekki í hvorn fótinn við áttum að stíga, ákváðum þó að stíga allir í þann hægri fyrst, nema Kristján, hann steig í þann vinstri, skrýtinn gutti. Við þökkuðum innilega fyrir okkur og gengum út með bros á vör. Bergur nýbúinn að snæða guðdómlega humarhala, Kristján og Ellert frábæra humarsúpu og Eyþór fékk eitthvað besta humar,snigla og hvítlauks ragú sem hann hafði nokkurn tímann smakkað. Já við gerðum okkur grein fyrir því að við vorum Matgæðingar, synir Íslands. Humarhúsið fékk fimm stjörnur frá öllum nema Stjána Cowell, enda skrýtinn gutti.
Subway: Mikil vonbrigði eftir Humarhúsið, subbuleg óreynd stúlka gerði báta Gæðingana og voru þeir alls ekki á þeim staðli sem synir Íslands Gæðingarnir geta sætt sig við, niðurstaðan var tæplega tvær stjörnur.
Október:
Kínahúsið: Matgæðingarnir vildu kynna sér menningu annarra landa, enda eru Gæðingarnir mjög meðvitðaur um heiminn í kringum sig. Fórum á Kínahúsið, það var prýðilegt, Ellert var mjög ánægður enda var vinkona hálfsystur frænku ömmu hans kínversk. Þokkaleg einkunn, um það bil rúmlega tvær og hálf stjarna.
Ruby Tuesday: Gæðingarnir fóru þarna og bundu miklar vonir við þennan stað, Þetta byrjaði ekki vel, afgreiðslustúlkan var tileygð og mjög ósmekkleg. Eyþór og Bergur pöntuðu sér skammt af djúpsteiktum rækjum í forrétt, fokdýr andskoti en þeir létu sig hafa það. Blöskraði þeim geypilega er þeir sá skammtinn, til skammar. Sex einmannalegar mikrórækjur biðu þeirra á kjánalegu fati, þeir fyrirgáfu þetta ekki og staðurinn skoraði ekki hátt. Tvær óverðskuldaðar stjörnur þó, undirritaður sér eftir þessari gjöf, alltof "le fokking" há.
Pizza King: Gæðingarnir urðu örvæningarfullir, annað feilspor, þeir fóru á Pizza King, það var hræðilegt, deigfljótandi pizzudjöfulinn bragðaðist eins og óbakað deig með pizzasósu og kjötmeti, alveg hrottalegt, ekki bætti það úr skák að það var feikilega dónaleg og ókurteis mynd af rassaberum karlmanni á afgreiðsluborðinu, svei. Meðaleinkunn, rétt rúmlega hálf stjarna.
Eldsmiðjan: Gæðingarnir héldu áfram leit sinni að góðri flatböku. Eldsmiðjan varð fyrir valinu, strákarnir mættu ferskir á opnunatíma, fáir mættir, hálf kalt þarna inni, strákunum var kalt, þurftu þeir að vera í úlpunum inni, ekki vænlegt til árangurs en Gæðingarnir eru fagmenn og héldu áfram störfum sínum. Pizzzurnar voru mjög fljótar að koma og má segja að það hafi bætt upp þennan umrædda kulda á staðnum, þó ekki alveg. Topppizzur alveg og ekki oft sem þrjú "p" koma í sama orðinu. Rúmlega þrjár og hálf stjarna, temmilega þokkalegt næstum prýðilegt.
Hornið: Flottur staður, kannski ekki mikið um hann að segja, huggulegur staður í miðbæ Reykjavíkur, veldur engum vonbrigðum, góður matur, góðlátlegt starfsfólk, góður matur, ágætur kostur. Þrjár og hálf stjarna.
Caruso: Gæðingarnir voru einkar spenntir fyrir þessum stað enda höfðu þeir heyrt margt gott af honum. Þetta byrjaði ekki vel, afgreiðslukonan sem tók á móti okkur var frekar stúrin og mætti halda að hún væri nýkomin úr annarri vinnu af Ruby Tuesday. Eyþór og Bergur fengu sér klúbbsamloku sem smakkaðist mjög vel en Ellert og Kristján fengu sér flatböku og urðu þeir fyrir töluverðum vonbrigðum, þjónustan vond og matur miðlungs. Tæplega tvær og hálf stjarna.
Mama´s Taco: Gæðingarnir gáfu þessum stað annað tækifæri, tækifæri sem þessi staður átti kannski ekki að fá, en við erum góðir Gæðingar, huggulegir og sætir. Við innkomu var hitinn gríðarlegur, fannst okkur fremur heitt þarna inni, það var þó bærilegt í byrjun. Það bættist þó "ó" fyrir framan bærilegt þegar leið á dvöl okkar á þessum guðsvolaða skyndibitastað, hitinn var feikilegur. Afgreiðslumennirnir tveir töluðu enga íslensku, þeir voru lengi að gera matinn og svo bragðaðist hann alls ekki vel eftir þessa löngu bið. Fremur mikið "le sjitt". Niðurstaðan var rétt rúmlega ein stjarna, við mælum ekki með þessu rassgati.
Framhald síðar...