Föstudaginn 14. ágúst átti matarfélag Matgæðinganna tveggja mánaða afmæli og í tilefni þess var slegið upp í veislu á Broadway kvöldinu áður og um leið gefið frí frá kennslu í flestum skólum landsins. Mæting í afmælispartýið var með eindæmum góð og er það mál manna að vel hafi til tekist. Ég mun þó ekki fjalla meira um það heldur málsverð þann sem okkur var boðið í fyrir veisluna.
Það var Kristín Gunnarsdóttir, systir Begga, sem tók að sér það mikla og erfiða verk að fæða matgæðingana. Þar var ekkert til sparað og komið fram við okkur eins og konunga. Þó má segja að félagið hafi verið vængbrotið því að Ellert sá sér ekki fært að mæta vegna þess að hann var að keppa með meistaraflokk KR í körfubolta en augljóst er að strákurinn þarf að læra að forgangsraða.
Máltíðin sjálf samanstóð af einkar góðum kjúklingarétti, beggum (hvítlauks baquette), hrísgrjónum og svo var boðið upp á prýðis köku í eftirrétt. Kjúklingarétturinn var töluvert ,,gums“ og því erfitt að segja hvað í honum var en þó náði undirritaður að greina eina eða tvær ólífur. Kjúklingurinn var meyr og máltíðin í heildina mjög góð en þó stóðu beggarnir upp úr og voru þeir sannkölluð kóngafæða. Það eina sem setti strik í reikninginn var klámkjafturinn á vinkonum Kristínar sem særði blygðunarkennd gæðinganna en ég treysti mér ekki til þess að rita klúr ummæli þeirra hér.
Stjörnurnar létu ekki á sér standa en ég og Bergur gáfum báðir fjórar en Kristján lét sér nægja þrjár og hálfa enda beinn afkomandi Önnu Frank í karllegg. Snilldar máltíð!
Eyþór matgæðingur