American Style
Komiði blessuð og sæl gott fólk,
Matgæðingarnir eru mættir aftur til starfa!
Það var mikil tilhlökkun í öllum meðlimum Gæðinganna þegar þeir fóru út að snæða seinastliðinn föstudag, en það var fyrsta máltíð þeirra saman síðan prófin kláruðust þann alkunna dag 18. maí 2006.
Eftir lokun Pizza 67 á Tryggvagötu eftir eiturlyfjaskandalinn opnaði þar glænýr
American Style staður, og þar eð Gæðingarnir höfðu aldrei snætt á þeim auðmjúka stað áður var svo sannarlega kominn tími til að vega hann og meta.
Að þessu sinni vorum við með hvorki meira né minna en TVO gestadómara, þá
Jóhann Gísla og
Gunnar Örn úr Menntaskólanum í Reykjavík. Gunnar er gamall refur úr gestadómarabransanum og Jóhann hefur verið viðloðandi Gæðingana allt frá stofnun félagsins, og kunna Gæðingarnir ávallt vel að meta þeirra innlegg í matarumræðuna.
En þá að staðnum. Að ganga þar inn er nánast eins og að labba á vegg, en hreinlætisfnykurinn er það mikill að hann veldur eilítilli klígju í þörmum Gæðinganna. Að vísu er það einnig góðs viti að staðurinn sé hreinn og fínn, en öllu má nú ofgera. Við skrifum þetta á það að hann er tiltölulega nýopnaður. Að venju var búið að rýma staðinn um þetta leyti þar sem Gæðingarnir gerðu boð á undan sér og var þegar búið að leggja á borð og allt tilbúið fyrir pöntun.
Ostborgarar og BBQ borgarar fóru brátt að flæða á borð Gæðinganna en eitthvað fór maturinn misvel í fólkið.
Eyþór Gæðingur átti til að mynda mjög erfitt með matinn og fékk meira að segja í magann, en slíkt er að sjálfsögðu óviðunandi. Einnig átti
Ellert við ramman reip að draga og skildi eftir nánast allar franskarnar.
Kristján Cowell borðaði hins vegar með bestu lyst og gekk meira að segja í það að aðstoða aðra við að klára þeirra skammta eftir að hann kláraði sinn og á hann hrós skilið fyrir framgöngu sína.
Verðin þóttu Gæðingunum vera í
hærri kantinum og til að mynda var Eyþór að borga fúlgur fyrir vonda ostborgarann sinn sem hann fær aldrei að sjá aftur. Í heildina var staðurinn að valda Gæðingunum nokkrum vonbrigðum en þó er vel staðið að öllu í sambandi við útlit og stíl. Veggirnir eru þaktir veggspjöldum af frægum tónlistarmönnum og þar er einnig hægt að sjá ýmiss konar glingur úr tónlistarsögunni sem þykir spennandi. Þá er tilvalið að skoða þessa aukahluti til dæmis þegar beðið er eftir matnum. Fólk sem hefur í hyggju að mæta þangað með börn í eftirdragi eiga möguleika á að stinga þeim í skemmtilegt leikherbergi sem Bergur Gæðingur mat sem “eitt besta leikherbergi sem hann hafði séð”.
Nú á nýju ári hafa staðlar Gæðinganna
hækkað og verða stöðum ekki miskunnað jafn mikið og á seinasta ári. Viljum við því biðja staði sem eiga von á okkur í heimsókn að vinsamlegast hysja upp um sig buxurnar og gera vel að Gæðingunum, því eins og alþjóð veit er matgaedingar.blogspot.com upphafssíða í öllum tölvum Reykjavíkur, og heimildamenn segja okkur að einnig sé svo á stöðum eins og Hong Kong, Svalbarða og Honolúlú.
Stjörnugjöf á skalanum 0-5 stjörnur var eftirfarandi:
Krissi Cowell: 2 og hálf
Beggi Baguette: 2 og hálf
Eyþór Eðall: 2 stjörnur
Prins Ellert: 2 stjörnur
Með kærri kveðju,
Gæðingarnir